Fara í innihald

Heiðursvörður Billa Barnunga

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kápa hollensku útgáfu bókarinnar.

Heiðursvörður Billa barnunga (franska: L'Escorte) eftir Maurice de Bevere (Morris) og René Goscinny er 28. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1966, en sagan sem hún hefur að geyma birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Sval (f. Le Journal de Spirou) á árunum 1964-65.

Söguþráður

[breyta | breyta frumkóða]

Billi barnungi situr í fangelsi í Texas þar sem hann á eftir að afplána 1245 ár af refsidómi fyrir ýmis afbrot. Þegar dómstóll í Bykkjugili í Nýju Mexíkó fer fram á að Billi verði sendur þangað til að mæta fyrir rétti vegna annarra afbrota er Lukku Láki fenginn til að fylgja Billa. Ferðin á þó eftir að reynast viðburðarík þar sem Billi notar hvert tækifæri til að strjúka úr gæslunni. Ekki bætir úr skák að smábófinn Berti Bulla fylgir í humátt á eftir og ætlar sér að frelsa Billa úr klóm réttvísinnar í von um ágóðahlut.

Fróðleiksmolar

[breyta | breyta frumkóða]
  • Heiðursvörður Billa barnunga er önnur Lukku Láka bókin þar sem byssubófinn með barnsandlitið er í aðalhlutverki. Sú fyrri, Billi Barnungi, kom út fjórum árum fyrr.
  • Í byrjun bókarinnar kemur fulltrúi hraðpóstþjónustunnar Fljúgandi Fákanna Fótfráu (e. Pony Express) með hraðbréf til Lukku Láka. Eins og lýst er í bókinni Söngvírnum var hraðpóstþjónustunni komið á fót árið 1860, en hún lagði upp laupana rúmu ári síðar þegar ritsíminn varð að veruleika. Hinn raunverulegi Billi barnungi var þá aðeins tveggja ára, en hann fæddist árið 1859.
  • Á bls. 14 í bókinni raular Billi þekkt bandarískt þjóðlag, Streets of Laredo, en í íslensku útgáfunni er texta lagsins þó breytt.

Íslensk þýðing

[breyta | breyta frumkóða]

Heiðursvörður Billa barnunga var gefin út af Fjölva árið 1979 í íslenskri þýðingu Þorsteins Thorarensen. Þetta er 19. bókin í íslensku ritröðinni.