Hvernig áttu að deila sögunni þinni

Uppfært: 10. september 2024

Sönnu vellíðunarsögurnar sem fjölbreytta TikTok samfélagið okkar deilir geta verið uppspretta innsýnar og stuðnings. Við leggjum áherslu á að byggja upp stuðningsumhverfi fyrir alla og öruggt rými fyrir fólk til að deila reynslu sinni, ábendingum og bataferlum.

Vellíðan er ekki auðskilin. Andlegt og líkamlegt heilsufarsástand getur verið brátt, langvinnt, í dvala, undir stjórn eða einhvers staðar þar á milli. Andleg og líkamleg heilsa getur líka haft áhrif á hvor á aðra. Það eru skin og skúrir, nýir áfangar og bakslög. Vellíðunarsaga hvers einstaklings er einstök fyrir hann. Við hvetjum þig til að tengjast öðrum á þýðingarmikinn hátt og muna að þetta er ekki keppni.

Það er líka mikilvægt að muna að TikTok kemur ekki í staðinn fyrir læknisráð. TikTok samfélagið getur verið uppspretta stuðnings í vellíðunarferlinu þínu. En ef þú átt í erfiðleikum eða hefur áhyggjur af eigin vellíðan, hvetjum við þig til að leita til heilbrigðisstarfsfólks.

Vellíðan getur verið viðkvæmt umræðuefni fyrir marga. Það getur verið krefjandi að tala um hana á þann hátt að það verndi bæði andlega heilsu þína og andlega heilsu samfélagsins í heild. Til að styðja fólk sem vill deila sögu sinni um vellíðan, eru hér að neðan nokkrar tillögur til að hafa í huga þegar þú býrð til og deilir á TikTok. Mundu að kíkja á Viðmiðunarreglur fyrir samfélagið á TikTok til að fá upplýsingar um hvað er ekki leyft á TikTok.

Ertu tilbúin(n) að deila sögunni þinni?

Að vera örugg(ur) á netinu byrjar hjá þér. Áður en þú ýtir á „taka upp“ er gagnlegt að hugsa til hlítar hvort þú sért tilbúin(n) að deila sögunni þinni. Mundu að það er erfitt að spá fyrir um viðbrögð annarra við líðan þinni - jafnvel þegar þú fylgir bestu starfsvenjum um að deila sögunni þinni.

Hér að neðan eru fimm skref til að hjálpa til við að leiðbeina þér.

Skref 1: Íhugaðu áform þín og hvað þú vilt tala um:

Fólk getur haft margar ástæður fyrir því hvers vegna það vill deila sögu sinni, eins og að vilja vera „sýnilegt“, leita stuðnings, skapa meðvitund, draga úr einmanaleika eða því leiðist. Það er líka mikilvægt að hugsa um hvaða hluta af sögunni þinni þú vilt deila og hvernig þú vilt deila henni. Eftirfarandi spurningar geta hjálpað þér að velta fyrir þér áformum þínum og því sem þú vilt tala um:

  • Hvaða hluta af sögunni minni vil ég deila?
  • Hverjar eru ástæður mínar fyrir að deila? Hverju vonast ég til að fá áorkað með því að deila? Hvert er markmiðið mitt?
  • Hvað veldur því að mér er umhugað um þetta efni? Er það í samræmi við persónuleg gildi mín að birta þetta?
  • Hvernig vil ég deila því? Í myndbandi, sögu, Í BEINNI, í lagi, athugasemd eða á annan hátt?
  • Hvaða stíl vil ég nota til að deila? Fræðslustíl, tónlistarstíl, sjónarhornstíl (POV) eða einhvern annan stíl?
Skref 2: Hugleiddu hvernig það að búa til efnið getur haft áhrif á andlega heilsu þína:

Það að deila sögunni þinni getur haft áhrif á andlega heilsu þína jafnvel áður en þú ýtir á birta. Þegar þú býrð til efni verður þú að hugsa til baka og velta fyrir þér upplifun þinni. Það gæti kallað fram alls kyns tilfinningar eins og sorg, söknuði, skömm eða stolt. Þessi upplifun er mismunandi fyrir alla, svo eftirfarandi spurningar geta hjálpað þér að hugsa til enda hvernig gerð efnisins gæti haft áhrif á þig:

  • Hvernig líður mér venjulega þegar ég hugsa um vellíðunarsöguna mína?
  • Hvernig mun mér líða að sjá eða hlusta á sjálfa(n) mig í upptöku, þegar ég er að klippa eða í afspilun?
  • Er ég með áætlun til að takast á við þær tilfinningar sem gætu komið upp?
  • Væri það gagnlegt að deila sögu minni og ekki skaðlegt fyrir sjálfa(n) mig eða aðra?
Skref 3: Íhugaðu hverju þú ert tilbúin(n) að deila:

Það er mikilvægt að vita hver mörk þín eru áður en þú deilir sögunni þinni. Sumum finnst þægilegt að deila persónulegum upplýsingum. Öðru fólki finnst þægilegra að ræða líðan sína á yfirborðsstigi. Eftirfarandi spurningar geta leiðbeint þér við að átta þig á mörkunum þínum:

  • Hvað myndi mér finnast um að ókunnugt fólk, bekkjarfélagar, vinnufélagar, samfélagsmeðlimir, vinir eða fjölskylda viti:
    • Nánar upplýsingar um andlega eða líkamlega heilsu mína?
    • Andlegt eða líkamlegt heilsufarsástand eða sjúkdómsgreiningu sem ég er með?
    • Þær andlegu eða líkamlegu heilsumeðferðir sem ég hef prófað eða notað?
    • Hvernig andleg eða líkamleg heilsa mín hefur haft áhrif á skóla, vinnu eða sambönd?
  • Hverjum vil ég deila þessu með? Eingöngu fjölskyldu og vinum? Breiðari áhorfendahóp?
  • Hvernig myndi mér líða ef efninu mínu eða sögunni væri dreift út fyrir þann áhorfendahóp sem ég ætlaði mér? Eins og ef einhver tekur skjáupptöku, tekur skjáskot eða sýnir öðrum.
  • Hvernig myndi mér líða ef sagan mín næði á víð og dreif? Hvað ef henni væri deilt í fréttum eða á öðrum svæðum á netinu?
  • Ef sagan þín fjallar um annan einstakling, hvernig myndi viðkomandi líða ef hann sæi færsluna þína? Hafa viðkomendur gefið þér leyfi til að deila sögunni um þau?
Skref 4: Íhugaðu hvernig það að deila sögunni þinni getur haft áhrif á þig og annað fólk til skamms og langs tíma:

Það er gagnlegt að íhuga hvernig fólk gæti brugðist við sögunni þinni svo þú getir undirbúið þig. Þú gætir viljað búa til viðbragðsáætlun, ráðfæra þig við geðheilbrigðis- eða læknisþjónustu þína eða setja upp mismunandi verkfæri og eiginleika á TikTok. Athugaðu stillingarnar þínar til að vernda friðhelgi þína þegar þú deilir efni. Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga:

  • Til skamms tíma:
    • Fékk ég samþykki einhvers sem ég nefni í sögu minni til að tala um hann? Ef ég gerði það ekki, hvaða áhrif mun það hafa á samband okkar?
    • Hvernig mun það að deila hafa áhrif á bekkjarfélaga mína, vinnufélaga, samfélag, vini eða fjölskyldu? Hvernig munu þau bregðast við færslunni minni? Mun hún valda einhverjum vandamálum? Munu þau styðja mig?
    • Hvaða jákvæðu, neikvæðu og hlutlausu afleiðingar gætu orðið af því að deila? Hvernig myndi ég takast á við þessar afleiðingar? Hvernig myndi ég bregðast við neikvæðum viðbrögðum?
    • Sem svar við færslunni minni gætu aðrir deilt erfiðum sögum með mér eða deilt skoðunum sem gæti verið erfitt að heyra. Er ég tilbúin(n) að styðja þau og hlusta? Eða hef ég ákveðið hvaða mörk ég mun setja?
    • Hef ég gripið til varúðarráðstafana til að tryggja að upplýsingarnar sem ég deili séu áreiðanlegar og réttar?
    • Er ég með persónuverndarstillingar mínar tilbúnar til að takmarka færsluna mína við þann áhorfendahóp sem ég vel? Eða til að takmarka hvernig þau geta haft samskipti við mig?
    • Ef ég ætla að skrifa margar færslur um söguna mína, hvaða áhrif mun það hafa á mig eða aðra?
  • Til lengri tíma:
    • Þegar ég lít til baka, hvað mun mér finnast um að hafa deilt sögunni minni eftir 2 mánuði? 1 ár? 5 ár?
    • Hvað mun mér finnast um að framtíðarmaki, vinir, fjölskylda, skóli eða vinnuveitendur sjái færsluna mína?
Skref 5: Að taka ákvörðun:

Eftir að hafa farið í gegnum skrefin fjögur hér að ofan er síðasta skrefið að taka ákvörðun um hverju þú vilt deila, hvernig þú vilt deila, hverjum þú vilt deila með og hvernig þú ætlar að takast á við þetta allt. Stundum kemstu að því að þú vilt ekki deila. Stundum geturðu verið spennt(ur) fyrir því að deila. Stundum ertu ekki ennþá viss. Sama hvað, hefur þú stjórn á að taka þessa ákvörðun fyrir þig!

  • Ef þú ákveður að þú viljir deila sögunni þinni mun restin af þessari handbók vera hjálpleg í því ferli. Þú munt finna almennar gagnlegar ráðleggingar, ráð um að ræða ákveðin umræðuefni, stikkorð til að veita þér innblástur og upplýsingar um verkfæri og eiginleika til að vernda vellíðan þína á TikTok.

Almenn ráð um að deila sögunni þinni

Að deila efni sem hjálpar, veitir innblástur og fræðir.

Það sem þú deilir og hvernig þú deilir því er jafn mikilvægt og að ákveða hvort þú eigir að deila því. Að deila sögum um að takast á við, von og bata getur hjálpað öðrum með því að fræða þau, veita þeim innblástur og láta þau finna að þau eru ekki ein. Þú hefur einstaka rödd, sjónarmið og reynslu - notaðu það til að móta eigin skilaboð og áhrif.

Hér að neðan eru nokkur gagnleg grundvallaratriði um að deila sögunni þinni á öruggan hátt sem geta hjálpað til við að leiðbeina þér.

Gagnleg grundvallaratriði

Að deila þinni einstöku sögu
  • Sögur eru áhrifamiklar. Ef þú vilt deila upplýsingum um heilsufarsástand þitt eða sjúkdómsgreiningu er gagnlegt að beina frásögninni að þinni eigin reynslu. Samhengi lífsreynslu þinnar sýnir þessar upplýsingar með skýrari hætti en að deila bara lista yfir einkenni.
  • Vellíðan er ekki auðskilin. Það eru skin og skúrir, nýir áfangar og bakslög. Það getur verið gagnlegt að viðurkenna skin og skúra í stað þess að mála of einfalda mynd af bata. Það að undirstrika að heilsa er flókin hjálpar líka við að leiðrétta ranghugmyndir og draga úr stimplun.
  • Beindu samtalinu að því sem virkar fyrir þig. Þegar bjargráð, meðferðir eða vörur hjálpa okkur við eigin vellíðan viljum við oft deila þeim með öðrum. Það er mikilvægt að beina athyglinni að því hvernig það hjálpaði þér, frekar en að koma með víðtækar fullyrðingar, til að forðast að rugla áhorfendur.
  • Vertu hreinskilin(n) um faglegan bakgrunn þinn. Að kynna sjálfan þig sem viðurkenndan aðila eða sérfræðing í geðheilbrigðismálum umfram eigin persónulega reynslu getur ruglað áhorfendur.
  • Taktu þátt í batasamfélögunum á TikTok. Ef færslan þín snýst um bata, notaðu batamiðuð myllumerki til að taka þátt í TikTok samtölunum sem eru nú þegar í gangi. Skoðaðu sérstöku ráðleggingahlutana hér að neðan til að fá upplýsingar um myllumerki sem mismunandi samfélög nota.
  • Hafðu í huga hvernig smáatriði í sögu þinni gætu haft áhrif á áhorfendur. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir efni eins og sjálfsvíg, sjálfsskaða, átröskun og líkamsímynd. Skoðaðu sérstakar ráðleggingar frá okkur um þessi efni hér fyrir neðan.
Að tala um annað fólk í sögunni okkar
  • Fáðu samþykki. Áður en þú fjallar um heilsufarsupplýsingar annarra er mikilvægt að leita eftir og virða mörk þeirra þegar kemur að því að deila. Ekki vísa til annarra nema þeir hafi gefið þér leyfi til að deila. Ef þú talar um einhvern sem er látinn, leitaðu samþykkis frá fjölskyldu eða ástvinum.
  • Notaðu orðalag sem er ekki stimplandi. Það er skaðlegt að kalla fólk með heilsufarsástand „brjálað“, „geðveikt“, „snarvitlaust“, „kryppling“, „vitfirrt“ eða „klikkað“. Það styrkir neikvæðar staðalmyndir og stimplun.
  • Berðu alltaf virðingu fyrir og fylgdu orðalagi einstaklinga sem þú talar um.
    • Almennt er orðalag „þar sem einstaklingurinn kemur fyrst“ talin kurteis og mælt er með að nota það ef þú veist ekki hvernig einhver vísar til sjálfs sín.
      • Segðu til dæmis „einstaklingur með geðsjúkdóm“ í staðinn fyrir „geðsjúklingur“ og „einstaklingur með áfengissýki“ í staðinn fyrir „alkóhólisti“.
    • Sumir einstaklingar og hópar kjósa orðalag „þar sem sjálfsmynd kemur fyrst“ þar sem þeir líta á heilsufarsástand sitt sem hluta af sjálfsmynd sinni.
      • Sumt fólk notar til dæmis „einhverfur“ frekar en „einstaklingur með röskun á einhverfurófi“ og sumt fólk notar „fatlaður“ frekar en „einstaklingur með fötlun“.
    • Ef þú ert í vafa, ekki hika við að spyrja fólk hvaða orðalag það notar!
Að hjálpa öðru fólki
  • Hvettu þau til þess að leita sér hjálpar. Hvettu fólk sem á í erfiðleikum til að leita hjálpar og stuðnings. Þú getur sett inn tengla og tengiliðaupplýsingar fyrir mismunandi gerðir af stuðningi, svo sem áfallasíma, jafningjastuðningssíma og hagsmunasamtök.
  • Sýndu samúð og réttmætingu. Fólk sem deilir er yfirleitt að leita að jafningjastuðningi og hvatningu, svo sýndu tillitsemi. Stundum veist þú kannski ekki hvað þú átt að segja eða gera til að styðja annað fólk. Þú gætir freistast til að svara með einföldu svari eins og: „ekki hafa áhyggjur, vertu hamingjusamur/hamingjusöm“, „þetta reddast“ eða „hertu upp hugann, það verður allt í lagi með þig“. Þó að þessar setningar kunni að virðast upplífgandi, geta þær gert lítið úr ójákvæðri upplifun og tilfinningum einhvers.
  • Settu mörk. Ef þú tekur eftir því að stuðningur við annað fólk tekur toll af þinni eigin líðan skaltu ekki hika við að draga þig í hlé.

Þú getur fengið frekari upplýsingar um að hjálpa nauðstöddum meðlimum samfélagsins í Handbókinni um andlega líðan.

Gagnleg umræðuefni

Hér eru ábendingar um gagnleg efni til að íhuga fyrir þitt eigið efni:

  • Ábendingar um úrræði, stuðning og sjálfsumhyggju sem þér fannst gagnlegar
  • Þættir í rútínunni þinni sem eru gagnlegir við að hafa stjórn á vellíðan þinni
  • Það sem þú vilt segja við aðra sem gætu átt í sömu erfiðleikum og þú
  • Hvaða skref fólk getur tekið til að styðja aðra sem eiga í erfiðleikum
  • Tillögur um hverra er hægt að leita til í erfiðleikum eða neyð
  • Hvaða stuðning þú hefðir viljað fá í ferlinu þínu
  • Hversu algengt heilsufarsástand þitt er, nokkrar mýtur um það og hvar fólk getur fengið frekari upplýsingar um það
  • Hindranir sem þú stóðst frammi fyrir til að fá greiningu eða meðferð og hvernig þú komst yfir þær
  • Hvaða áhrif heilsufarsástand þitt hefur haft á almenna líðan þína, skólagöngu, starfsferil, einstaka hæfileika eða áhugamál og/eða samskipti þín við vini, fjölskyldu eða maka
  • Hvar fólk getur fundið umönnun, hvers konar meðferðum er mælt með eða hvernig fólk getur fundið sérfræðinga
  • Hvernig bati eða meðferð breytir lífi manns (eða ekki).
  • Hvernig skilgreinir þú bata eða hvernig lífið er „eftir bata“
  • Meðmæli og hvatning til að heyra í vinum og vandamönnum varðandi andlega heilsu þeirra
  • Hlutverkið sem samfélagið gegnir og hvernig samfélagið okkar getur sameinast um að skapa heilbrigt umhverfi

Ábendingar eftir efni

Að tala um sjálfsvíg eða sjálfsskaða

Ef þú ert að skrifa færslu um reynslu af sjálfsvígi eða sjálfsskaða, þar á meðal virðingarvott til ástvinar sem hefur látist af völdum sjálfsvígs, bjóða sérfræðingar upp á þessar viðbótarráðleggingar:

Gagnleg grundvallaratriði
  • Hafðu í huga hvernig upplýsingar í sögu þinni gætu haft áhrif á áhorfendur. Að deila upplýsingum og myndum af sjálfsvígs eða sjálfsskaða tólum eða aðferðum, sjálfsvígsstöðum og sjálfsvígsbréfum og -skilaboðum er skaðlegt og ekki leyfilegt á TikTok. Slíkt efni getur valdið vanlíðan og óvart gefið samfélagsmeðlimum sem eiga í erfiðleikum nýjar hugmyndir. Þetta skiptir miklu máli þegar um er að ræða sjálfsvígsdauða frægra eða þekktra einstaklinga. Það getur óviljandi sveipað sjálfsvíg glamúr.
  • Notaðu orðalag sem er ekki stimplandi. Jafnvel þótt þú meinir það ekki á þann hátt, geta hugtök eins og „framdi sjálfsvíg“, „vel heppnað/misheppnað sjálfsvíg“ eða „misheppnuð tilraun“ litið út fyrir að vera dæmandi.
    • „Framdi“ felur í sér að sjálfsvíg sé glæpsamlegt og setur stimpil á það. Þetta getur komið í veg fyrir að einstaklingar í sjálfsvígshugleiðingum leiti sér hjálpar. Það hefur líka áhrif á fólk sem hefur misst ástvini með þessum hætti. Segðu í staðinn „lést af völdum sjálfsvígs“.
    • Hugtök eins og „vel heppnað“ eða „misheppnað“ stilla sjálfsvígi upp sem ákjósanlegri niðurstöðu. Notaðu orðasambönd eins og „sjálfsvígstilraun sem leiddi ekki til dauða“ eða „lifðu af sjálfsvígstilraun sína“.
  • Taktu þátt í batasamfélögunum á TikTok. Ef þú ert að skrifa um bata eða meðvitund, notaðu batamiðuð myllumerki til að vera með í víðtækari TikTok samtölum (t.d. #recoverytok, #mentalhealthawareness). Athugaðu að sumt efni gæti verið orsakavaldur fyrir áhorfendur og mælt er með að vara við efninu.
  • Hafðu það batamiðað. Að lýsa sjálfsvígi og sjálfsskaða sem heillandi, rómantískum, hetjulegum, lofsverðum eða praktískum valkostum er skaðlegt og getur leitt til þess að aðrir íhugi sjálfsvíg og sjálfsskaða. Það er gagnlegt fyrir alla að viðhalda þeim skilaboðum að það sé hægt að koma í veg fyrir sjálfsvíg og að stuðningur sé til staðar.
  • Sjálfsvíg og sjálfsskaði eru ekki auðskilin. Það að reyna að finna eina orsök sjálfsvíga og sjálfsskaða er of mikil einföldun. Að skilja og deila því að sjálfsvíg og sjálfsskaði eru líklega afleiðing af mörgum mismunandi þáttum getur hjálpað til við að leiðrétta ranghugmyndir og hvetja til öruggra, uppbyggilegra umræðna. Forðastu vangaveltur um orsakir sjálfsskaða, sjálfsvígstilrauna eða andláts.

Þú getur skoðað Handbók Samverjans fyrir gagnlegri grundvallaratriði eða opnaðu TikTok Sjálfsvígs og sjálfsskaðaúrræðasíðuna fyrir frekari upplýsingar.

Að tala um átröskun eða líkamsímynd

Ef þú ert að skrifa færslu um reynslu af átröskun eða líkamsímynd, bjóða sérfræðingar upp á þessar viðbótarráðleggingar:

Gagnleg grundvallaratriði
  • Hafðu í huga hvernig smáatriði í sögu þinni gætu haft áhrif á áhorfendur. Að deila upplýsingum eða myndum um afar hitaeiningasnautt mataræði, átröskun og líkamsskoðunartísku er skaðlegt og ekki leyft á TikTok. Fyrir utan það sem er ekki leyft á TikTok er mikilvægt að hafa í huga hvernig upplýsingar um áröskun geta einnig óvart orðið að „leiðbeiningum“ fyrir fólk sem er í áhættuhópi.
    • Upplýsingar og smáatriði um matar- og hitaeininganeyslu, æfingavenjur og þyngdarstjórnunaraðferðir eru sérstaklega varasamar. Að deila „fyrir og eftir“ myndum, líkamsþyngd, fatastærð, líkamsþyngdarstuðli (BMI) eða öðrum mælingum getur hvatt til samanburðar sem er gagnslaus.
  • Hvettu til inngildingar allra líkama og matvæla. Að vísa til matvæla, líkamslögunar og stærða, fatastærða og líkamsþyngdar sem „gott“, „slæmt“, „óhollt“ og „hollt“ getur orðið til þess að áhorfendur skammast sín og styrkja skaðlegar frásagnir. Almennt er best að tjá sig ekki um útlit eða líkama einhvers þar sem það gæti valdið sárskauka - jafnvel þótt það sé meint sem hrós.
  • Berðu alltaf virðingu fyrir og fylgdu orðalagi einstaklinga sem þú talar um. Taktu eftir orðunum sem fólk notar til að lýsa sjálfu sér eða spyrðu það hvaða hugtök það notar. Sumt fólk gæti túlkað orðið „feit(ur)“ eða „akfeitur“ sem móðgun. Fyrir annað fólk eru orðin „feit(ur)“ eða „akfeitur“ hlutlaus lýsing eða gildur hluti af sjálfsmynd þeirra.
  • Notaðu batamiðuð hugtök. Ekki er mælt með því að nota sömu slanguryrði og eru notuð af samfélögum sem stuðla að átröskunum, jafnvel þegar verið er að fordæma þessi samfélög. Að nota þessi slanguryrði getur óvart gefið áhorfendum verkfæri til að finna þetta skaðlega efni á netinu.
  • Taktu þátt í batasamfélögunum á TikTok. Ef þú ert að skrifa um bata eða meðvitund, notaðu batamiðuð myllumerki til að vera með í víðtækari TikTok samtölum (t.d. #recoverytok, #mentalhealthawareness, #edrecovery). Athugaðu að sumt efni gæti verið orsakavaldur fyrir áhorfendur og mælt er með að vara við efninu.

Þú getur heimsótt Stuðningssíðu TikTok fyrir átraskanir til að fá frekari upplýsingar.

Að tala um spilavanda

Ef þú ert að skrifa færslu um spilavanda bjóða sérfræðingar upp á þessar viðbótarráðleggingar:

Gagnleg grundvallaratriði
  • Berðu alltaf virðingu fyrir og fylgdu orðalagi einstaklinga sem þú talar um. Við mælum með orðalagi þar sem einstaklingurinn kemur fyrst. Þetta þýðir að við skilgreinum ekki einstakling út frá hegðun eða greiningu. Orðalag þar sem einstaklingurinn kemur fyrst dæmir ekki og kemur fram við fólk sem er að upplifa fíkn af virðingu og samúð.
    • Þó að við kjósum að nota ekki ákveðin orð eins og „edrú“ eða „fíkill“ (þar sem sumum kann að finnast þau stimpla), á TikTok styðjum við fólk við að auðkenna sig eins og það vill. Við hvetjum fólk til að finna samfélag í gegnum þeirra eigin sjálfsmynd.
  • Spilavandi er ekki auðskilinn. Það að reyna að finna eina orsök spilavanda er of mikil einföldun. Spilavandi er afleiðing af mörgum mismunandi þáttum. Það er ekki vegna þess að einhver er með persónugalla. Þetta er röskun sem hægt er að meðhöndla.
  • Taktu þátt í batasamfélögunum á TikTok. Við höfum séð samfélagið okkar taka myllumerkjum okkar opnum örmum eins og #gamblingrecovery og #gamblingawareness sem bjóða upp á miðstöðvar fyrir samtöl, fræðslu og hvatningu. Myllumerki eins og #recoverytok og #addictionawareness bjóða upp á svæði til að ræða bata og vitundarupplifun. Þetta nær yfir margs konar efni, ekki eingöngu fyrir fjárhættuspil (sumt efni gæti verið orsakavaldur fyrir áhorfendur og mælt er með að vara við efninu).

Þú getur heimsótt Stuðningssíðu TikTok fyrir fjárhættuspil til að fá frekari upplýsingar.

Að tala um vímuefnanotkun

Ef þú ert að skrifa færslu um reynslu af vímuefnum og áfengi bjóða sérfræðingar upp á þessar viðbótarráðleggingar:

Gagnleg grundvallaratriði
  • Berðu alltaf virðingu fyrir og fylgdu orðalagi einstaklinga sem þú talar um. Við mælum með orðalagi þar sem einstaklingurinn kemur fyrst. Þetta þýðir að við skilgreinum ekki einstakling út frá hegðun eða greiningu. Að nota orðalag þar sem einstaklingurinn kemur fyrst er mikilvægt skref í átt að því að draga úr stimplun í garð fólks sem notar vímuefni.
    • Hér eru nokkur dæmi um hvernig það að skipta um orð getur hjálpað til við að draga úr stimplun á vímuefnaneyslu:
    • Notaðu:
      • Einstaklingur sem notar fíkniefni í staðinn fyrir „fíkniefnaneytanda“
      • Einstaklingur sem „lifir með eða upplifir fíkn“ eða „einstaklingur með fíkniröskun“ í staðinn fyrir „fíkill“, „dópisti“ eða „vímuefnaneytandi“
      • Einstaklingur á batavegi í staðinni fyrir „fyrrverandi fíkill“
      • Fíkniröskun í staðinn fyrir „vímuefnafíkn“
      • Einstaklingur með áfengissýki eða einstaklingur sem notar áfengi á hættulegan hátt í staðinn fyrir „alkóhólisti“
      • Vímuefnalaus, einstaklingur á batavegi eða bindindismaður í staðinn fyrir „edrú“ eða „hreinn“
      • Hélt sér á batavegi í staðinn fyrir að „halda sér hreinum“
    • Þó að við kjósum að nota ekki ákveðin orð eins og „edrú“ (þar sem sumum kann að finnast þau stimpla), á TikTok styðjum við fólk við að auðkenna sig eins og það vill. Við hvetjum fólk til að finna samfélag í gegnum þeirra eigin sjálfsmynd.
  • Vímuefnamisnotkun er ekki auðskilin. Fólk sem notar vímuefni á hættulegan hátt gerir það ekki vegna þess að það „vantar aga“. Fíkniröskun er sjúkdómur sem hægt er að meðhöndla, sem stafar af mörgum þáttum. Að skilja að vímuefnaneysluvandi er líklega afleiðing af mörgum mismunandi þáttum getur hjálpað til við að leiðrétta ranghugmyndir og hvetja til öruggra, uppbyggilegra umræðna.
  • Ferill hvers og eins er mismunandi: Fyrir þá sem eru á batavegi getur það verið fullt af skinum og skúrum og er einstakt ferli fyrir hvern og einn. Reyndu að forðast að bera saman reynslu þína við annað fólk þar sem það gæti látið þér líða illa í stað þess að skilja að bati þinn er daglegt ferli.
  • Taktu þátt í batasamfélögunum á TikTok. Við höfum séð samfélagið okkar taka myllumerkjum okkar opnum örmum eins og #recoverytok, #sobertok, #addictionawareness, #sobercurious sem og #sobernative, #blackandsober, #soberlatina, #sobergay, #soberlesbian, #transandsober, #quitsmoking og #fentanylawareness sem bjóða upp á miðstöðvar fyrir samtöl, fræðslu og hvatningu. Athugaðu að sumt efni gæti verið orsakavaldur fyrir áhorfendur og mælt er með að vara við efninu.

Þú getur heimsótt Stuðningssíðu TikTok vegna vímuefna til að fá frekari upplýsingar.

Að tala um reynslu af hörmulegum atburðum

Ef þú ert að skrifa færslu um hörmulegan atburð bjóða sérfræðingar upp á þessar viðbótarráðleggingar:

Gagnleg grundvallaratriði
  • Vertu meðvitaður/meðvituð um upplýsingarnar sem þú lætur fylgja með. Forðastu myndræn smáatriði og efni sem geta valdið fórnarlömbum, fjölskyldum þeirra, vinum, samfélaginu eða öðrum sem verða fyrir áhrifum af hörmulegum atburði skaða. Ef þessu efni er deilt skaltu nota viðvaranir um viðkvæmt efni og nota verkfæri til að gera myndrænar myndir óskýrar sem og auðkenni einstaklinga í færslunni þinni.
  • Leggðu áherslu á fórnarlömb, þolendur og viðbragðsaðila í efninu þínu. Ef þú birtir færslu um hörmulegan atburð af völdum einstaklings eða einstaklinga skaltu leggja áherslu á fórnarlömb, þolendur og viðbragðsaðila og forðastu að deila upplýsingum um einstaklinginn eða einstaklingana sem bera ábyrgð á hörmulega atburðinum. Auk þess, ekki deila neinu efni sem framleitt er af einstaklingnum eða einstaklingunum sem bera ábyrgð á þessum hörmulega atburði, sem gæti hvatt aðra til ofbeldis.
  • Vertu varkár þegar þú ræðir ofbeldisfulla eða hatursfulla hegðun. Þegar þú deilir eða ræðir ofbeldisfulla eða hatursfulla hegðun, veittu samhengi sem sýnir að þú styður ekki hegðunina. Þetta getur falið í sér að tjá sig um neikvæð áhrif á samfélög.
  • Gakktu úr skugga um að þú deilir upplýsingum sem eru áreiðanlegar og nákvæmar. Til að hjálpa til við að koma í veg fyrir útbreiðslu rangra upplýsinga, skaltu leita að trúverðugum heimildum, eins og ríkisstofnun eða áreiðanlegri fréttastofu, og staðfesta upplýsingar áður en þú deilir þeim.
    • Þegar þú bregst við hörmulegum atburði skaltu íhuga eftirfarandi spurningar:
      • Gæti þetta efni haft neikvæð áhrif á fólk sem skoðar það (t.d. útsett það fyrir ofbeldisfullum myndum eða samsæriskenningum)?
      • Er ég að deila upplýsingum sem ekki hafa verið veittar af traustum aðilum, svo sem opinberri deild eða áreiðanlegri fréttastofu?
      • Gæti þetta efni óviljandi skaðað fórnarlömb, fjölskyldur þeirra, vini, samfélag eða aðra sem verða fyrir áhrifum af þessum atburði?
      • Gæti þetta efni stuðlað að núverandi ástandi ótta eða skelfingar í kringum hinn hörmulega atburð?
      • Inniheldur efnið myndrænt hljóð, texta eða myndir sem gætu verið skaðleg eða truflandi fyrir aðra, sérstaklega þá sem verða fyrir áhrifum af atburðinum?
      • Kennir þetta efni tilteknu samfélagi eða samfélögum um hinn hörmulega atburð?
      • Þegar brugðist er við hörmulegum atburði af völdum einstaklings eða einstaklinga, gæti þetta efni stuðlað að athöfnum einstaklingsins eða þeirra sem bera ábyrgð á hörmulega atburðinum eða hvatt aðra til að beita ofbeldi?

Þú getur heimsótt Stuðningssíðu TikTok fyrir hörmulega atburði til að fá frekari upplýsingar.

Verkfæri og eiginleikar til að vernda vellíðan þína á TikTok

  • Við gerum okkur grein fyrir því að það er engin ein upplifun sem hentar öllum á netinu. Þess vegna bjóðum við upp á margs konar verkfæri fyrir notendur til að stjórna og hafa umsjón með Tiktok upplifun sinni. Vinsamlegast heimsóttu hjálparmiðstöðina okkar til að fá frekari upplýsingar um öryggi notenda og einnig öryggismiðstöðina okkar til að læra meira um tilkynningar.
  • TikTok gerir fólki kleift að hafa samskipti sín á milli á margan hátt í gegnum athugasemdir, bein skilaboð, dúett, samskeytingu og fleira. Þau eru öll hluti af því sem gerir netsamfélag aðlaðandi, en eins og samskipti hvar sem er, þá bera þau einnig hættu á skaðlegum samskiptum. Til að hlúa að velkomnu og styðjandi samfélagi höfum við ýmsar forritastillingar (stillingar eru mismunandi eftir þínu svæði og útgáfu af forritinu) sem gerir einstaklingum kleift að stjórna TikTok upplifun sinni.
Lokaðir reikningar
  • Sjálfgefið er að reikningar fyrir einstaklinga yngri en 16 ára séu stilltir á lokaðir, sem þýðir að þú getur samþykkt eða hafnað beiðnum fylgjenda, og aðeins fólk sem þú hefur samþykkt sem fylgjendur getur séð efnið þitt. Reikningar fyrir einstaklinga eldri en 16 byrja sem opinberir, sem þýðir að allir á TikTok geta skoðað myndböndin þín og skrifað athugasemdir eða stofnað dúett til að taka þátt í efninu sem þú hefur búið til og deilt. Þú getur auðveldlega breytt þessu í persónuverndarstillingunum þínum.
  • Ef þú ert að upplifa mikið magn af óvingjarnlegum eða óæskilegum athugasemdum við efnið þitt, mælum við með því að þú kveikir á „Athugasemdarstillingu“ í gegnum persónuverndarstillingarnar þínar svo þú getir betur haft umsjón með og stjórnað athugasemdunum sem þú færð.
Að sérsníða FYF
  • Viltu ekki verða fyrir ákveðinni tegund af efni á Fyrir þig síðunni? Haltu inni lengi á myndbandið og veldu „Hef ekki áhuga“. Smelltu á „Upplýsingar“ við hliðina á tilteknum myllumerkjum sem notuð eru í myndbandinu.
  • Takmarkaðu frekar óæskilegt efni með því að bæta við eða breyta leitarorða- og myllumerkjasíum undir „Kjörstillingar efnis“ í stillingunum þínum.
Að sérsníða hver getur sent þér skilaboð
  • Bein skilaboð (DM) veita samfélagsmeðlimum leið til að eiga einkasamskipti. Hægt er að senda og taka á móti beinum skilaboðum frá „Allir“, „Vinir“ (efnishöfundum sem þú fylgir, sem fylgja þér líka til baka), eða „Enginn.“ Aðeins skráðir reikningar sem eru 16 ára og eldri eru gjaldgengir fyrir bein skilaboð, og það er einn af þeim eiginleikum sem foreldri eða forráðamanneskja getur stjórnað beint þegar kveikt er á fjölskyldupörun.
Að sérsníða hver getur gert dúett og samskeytingu með þér

Dúettar gera notendum kleift að búa til myndbönd sem bregðast við TikTok efni annarra. Þú getur ákveðið hver hefur leyfi fyrir dúett eða samskeytingu með þér. Þú getur valið eina stillingu fyrir öll myndbönd eða stillt stillinguna fyrir hvert myndband fyrir sig. Fyrir notendur undir 16 ára er eiginleikinn stilltur á „Enginn“ og ekki er hægt að breyta honum. Fyrir 16 til 17 ára notendur er þessi eiginleiki stilltur á „Vinir“ en hægt er að breyta honum í „Enginn“ eða „Allir“. Frekari upplýsingar

Stjórna því hverjir geta skrifað athugasemdir við myndböndin þín
  • Í stillingum eru athugasemdir sjálfgefið stilltar á „Vinir“ fyrir notendur undir 16 ára. Þetta þýðir að aðeins þeir sem fylgja þér og sem þú fylgir aftur geta skrifað athugasemdir við myndböndin þín. Þú getur breytt þessu í „Enginn“ til að koma í veg fyrir að aðrir setji athugasemdir við myndböndin þín. Fyrir notendur 16 ára og eldri er þessi aðgerð stillt á „Allir“ og hægt er að breyta henni til að passa við óskir þínar.
Sía athugasemdir og leitarorð
  • Þegar kveikt er á athugasemdasíum verða móðgandi ummæli sjálfkrafa falin. Þú getur líka búið til sérsniðinn lista yfir leitarorð þannig að athugasemdir sem innihalda þessi orð verða sjálfkrafa falin. Þú getur ákveðið hverjir geta skrifað ummæli við myndböndin þín almennt með því að breyta persónuverndarstillingunum þínum. Frekari upplýsingar.
  • Sía valdar athugasemdategundir (einnig kallaðar ruslpóstur og móðgandi athugasemdir) gerir þér kleift að fela móðgandi eða ruslpósta athugasemdir nema þú samþykkir þær.
  • Leitarorðasíur fela athugasemdir með orðum eða orðasamböndum sem þú hefur valið.
  • Stillingin Sía allar athugasemdir felur athugasemdir við myndböndin þín nema þú samþykkir þau.
  • Sía athugasemdir frá óvingjarnlegu fólki gerir þér kleift að sía athugasemdir sem líkjast athugasemdum sem þér hefur áður mislíkað, tilkynnt eða eytt
  • Sía athugasemdir frá ókunnugum gerir þér kleift að sía athugasemdir frá fólki sem er ekki á fylgjenda- eða fylgni listanum þínum.
Fjarlægir athugasemdir og fylgjendur
  • Þú hefur líka möguleika á að eyða öllum óviðeigandi athugasemdum sem birtar eru á myndböndunum þínum. Pikkaðu bara og haltu inni athugasemdinni og veldu síðan „eyða“. Frekari upplýsingar.
  • Þú getur eytt fylgjanda hvenær sem er eða útilokað reikning varanlega frá því að skoða efnið þitt eða senda þér skilaboð. Frekari upplýsingar.
Tilkynna
  • Ef þú sérð efni sem brýtur gegn Viðmiðunarreglum fyrir samfélag TikTok geturðu tilkynnt það í appinu með því að fylgja þessum skrefum.

Úrræði

Þessi verkfærakista var þróuð í samráði sérfræðinga frá Alþjóðasamtökunum um sjálfsvígsforvarnir, Crisis Text Line, Through Line, Samverjum í Singapore og Samverjum (Bretland). Special thanks to Drs. Thomas Niederkrotenthaler, Rory O’Connor, Daniel Reidenberg, and Jo Robinson for their advice and research.


Fyrirvari

Ef þú eða einhver sem þú þekkir er með sjálfsvígshugsanir eða sjálfsvígshugmyndir, hafðu strax samband við heilbrigðisstarfsfólk eða sjálfsvígshjálparsíma. Innihaldið í þessum handbókum og verkfærakistum hefur ekki verið staðfest af TikTok og efnið sem er að finna í þessum handbókum og/eða verkfærakistum er eingöngu til upplýsinga og fræðslu og er ekki ætlað að veita geðheilbrigðis- eða læknisþjónustu.

„Hvernig á að deila sögu þinni á öruggan hátt“ á TikTok ætti ekki að koma í staðinn fyrir læknisfræðilega, sálfræðilega eða geðræna greiningu, meðferð eða ráðgjöf. Ekki hunsa eða seinka því að leita faglegrar læknisráðgjafar vegna efnis sem þú gætir hafa lesið og/eða heyrt á TikTok. Þú þarft ekki að taka þátt í þessum samtölum ef þú telur þig ekki undir það búin(n). Með því að deila sögum þínum og/eða reynslu á TikTok, hvort sem það er persónulegt eða á annan hátt, viðurkennir þú og samþykkir að það er engin vænting um friðhelgi einkalífs í neinum upplýsingum sem þú deilir.